Hugtakið menningarlandslag á sér ekki langa sögu og merking þess hefur til skamms tíma ekki verið skýrt mótuð. Hugtakið er ættað úr listasögu en á Endurreisnartímanum brydduðu málarar upp á þeirri nýung að mála myndir af fólki með raunverulegt landslag í bakgrunni, yfirleitt sveitalandslag í nágrenni borganna sem flestir listmálarar bjuggu í. Fljótlega þróaðist þetta út í að mála myndir af náttúrunni í aðalhlutverki og í hollensku var notað um þetta hugtakið „landschap“ sem tekið var upp í ensku í byrjun 17. aldar sem „landscape“ og síðan yfir í önnur, t.d. norrænu málin sem „landskab/ landskap.“ Þróun landslagsmálverksins næstu aldirnar (með hliðstæðu í ljóðlist og bókmenntum) sýnir vel breytingar á náttúruskynjun og vaxandi áhuga á að njóta fegurðar og stemningar. Á 19. öld óx áhugi á því að fanga óspillta náttúru og listmálarar fóru í leiðangra á framandi slóðir til að mála slík viðfangsefni en segja má að leit þeirra, samhliða leit landkönnuða og vísindamanna, hafi á endanum leitt til þeirrar niðurstöðu að það sé varla til það landslag sem ekki er á einhvern hátt mótað af mönnum. Á tímum loftslagshamfara er þetta einkar skýrt í hugum okkar: við skynjum vel hvernig fyrirbæri eins og jöklar eða úthöfin, sem ekki er á neins manns færi að breyta eða hemja, eru samt sem áður að breytast vegna áhrifa mannkyns.
Allt landslag er í þessum skilningi menningarlandslag. Hálendi Íslands er menningarlandslag vegna þess að gróðurfar þess hefur gerbreyst sökum beinna og óbeinna áhrifa búfjárbeitar eftir landnám.1 Það er vel hægt að upplifa hálendi Íslands sem óspillt víðerni en upplifun sem byggir á þekkingu á sögu hálendisins, ferða um það, könnun þess og nýtingu, er dýpri og, fyrir Íslendinga a.m.k., hluti af sameiginlegum verðmætum sem mynda grundvöll að sjálfsmynd okkar sem þjóð.
Þessi víði skilningur á menningarlandslagi er gagnlegur sem grundvallarsjónarmið en hann kallar líka á nánari útfærslur á því hvernig skilgreina eigi og varðveita ákveðið landslag. Það liggur í augum uppi að verndun menningarlandslags krefst annarskonar meðala en verndun einstakra mannvirkja eða náttúruvætta þar sem hægt er að stýra aðgengi og umgengni. Verndun menningarlandslags felur í sér að varðveita einkenni og yfirbragð. Til dæmis eru fjölmargar borgir með milljónum íbúa á heimsminjaskrá UNESCO en ekki er þar með sagt að í þeim megi ekki byggja ný mannvirki eða breyta þeim sem fyrir eru. Breytingum og nýbyggingum eru settar ákveðnar skorður til að þær skerði ekki þau gildi sem verndunin byggir á, en innan þess ramma er yfirleitt talsvert svigrúm því í raun er langoftast hægt að finna lausnir sem svara kröfum um uppfærslu og endurnýjun án þess að borgarlandslagið sé skemmt. Til þess að þetta gangi nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig verður tvennt að koma til. Í fyrsta lagi verða gildin sem verndunin byggir á að vera skýr og í öðru lagi verður þekking á þessum gildum að vera útbreidd og hafa hljómgrunn í samfélaginu.
Segja má að ef landslag og menningarlandslag er það sama þá sé seinna hugtakinu ofaukið. Það vísar hins vegar sérstaklega til hinna menningarlegu gilda sem gera landslag verðmætt og þjónar mikilvægu hlutverki þegar rætt er um verndun ákveðinna svæða með skírskotun til slíkra gilda. Allt landslag sem mótað er af manninum beint eða óbeint er því menningarlandslag alveg eins og það er líka náttúra en ákveðin svæði geta haft verndunargildi fyrst og fremst sem annaðhvort.
Lesa meira hér.