Um verkefnið
Saga byggðar í Hrísey: Íslandssagan í hnotskurn er verkefni, styrkt af Háskóla Íslands, sem gengur út á að búa til umgjörð fyrir kynningu sögu og fornleifa í Hrísey fyrir almenningi og ferðafólki.
Fornleifaskráning var gerð fyrir alla eyjuna 1998 og er því grunnþekking á minjum og menningarlandslagi góð. Þá hafa frá árinu 2018 verið í gangi vettvangsrannsóknir sem hafa miðað að því að bæta í skráninguna, mæla upp sýnilegar rústir og grafa í valda staði til að varpa ljósi á aldur og þróun byggðarinnar. Árið 2023 var annað árið af þremur í rannsóknarverkefni sem styrkt var af Fornminjasjóði, „Saga byggðar í Hrísey: Íslandssagan í hnotskurn“, en það miðar að því að afla grunnþekkingar á ástandi og útbreiðslu mannvistarleifa á aðalbæjarstæðunum tveimur, Syðstabæ og Ystabæ, en á þessum stöðum er mestra mannvistarleifa að vænta þó búið sé að afmá ummerki af yfirborði. Nú þegar er búið að afmarka a.m.k. þrjú svæði í hinu forna Syðstabæjartúni sem vænleg eru til frekari rannsókna.
Þá er áformað að hefja uppgröft á þeim stað sem líklegastur er til að geyma leifar frá landnámsöld, en forrannsóknirnar hafa einnig bent á annarskonar staði sem spennandi væri að kanna, m.a. kirkju og kirkjugarð frá miðöldum og verslunarstað frá síðmiðöldum/17. öld. Markmiðið er að koma á fót langtímaverkefni sem skilar niðurstöðum jafnt og þétt og getur á löngum tíma byggt upp þéttari þekkingu á þessu vel afmarkaða svæði en yfirleitt er reynt að ná með hefðbundnum nálgunum.
Í þessu felast tækifæri til að kynna niðurstöður rannsókna m.a. á þessum vettvangi sem á að þjóna sem miðlægur grunnur fyrir aðrar miðlunarleiðir. Stefnan er að hér verði að finna almennt kynningarefni sem og þær skýrslur sem hafa komið út auk gagnvirks korts sem sýnir staðsetningu fornleifa í Hrísey. Þá hvetjum við fólk til að koma á framfæri frekari upplýsingum eða senda inn spurningar.