Fornleifar í Hrísey
Árið 1998 fór fram fornleifaskráning í Hrísey og eru upplýsingar úr þeirri skráningur aðgengilegar á þessari heimasíðu. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.
Í skráningarkerfi Fornleifastofnunar hefur hver sýsla skammstafað heiti (EY, SÞ o.s.fr.v.) og hver jörð hefur þriggja stafa númer. Miðað er við jarðaskiptingu eins og hún kemur fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847 og byggir tölusetning jarðanna á því. Skipting jarða um miðja 19. öld ræður ekki aðeins númerum í skránni heldur er miðað við hana þegar ákvarðað er hvaða jörð ákveðnir minjastaðir tilheyra. Hverjum minjastað er gefin kennitala sem er þriggja stafa númer sem hengt er við sýslutákn og jarðarnúmer (dæmi: EY-051:001). Fornleifaskrá hverrar jarðar hefst á stuttu yfirliti yfir skiptingu jarðarinnar, eignarhald hennar og matsverð, og einnig er gefin stutt lýsing á náttúrufari og búskaparaðstæðum og fjallað um sléttun túna. Þar á eftir kemur listi yfir fornleifar sem fundist hafa heimildir um.
Í skránni fær hver minjastaður eina grein og er framsetning upplýsinganna stöðluð. Í fyrstu línu hverrar greinar eru grunnupplýsingar auðkennisnúmer, sérheiti, tegund, hlutverk og hnattstaða. Á eftir auðkennisnúmeri kemur sérheiti hennar ef eitthvert er og síðan tegund. Með tegundarflokkun er leitast við að skilgreina hvers eðlis fornleifin er, þ.e. hvort um er að ræða mannvirki af einhverju tagi sem enn sést, og þá hverskyns (t.d. tóft, garðlag eða varða), mannvirki sem vitað er um en er horfið (heimild, örnefni) eða fornleif sem ekki hefur verið mannvirki (álagablettur, sögustaður, nátttröll eða hellir sem hefur t.d. verið notaður sem skjól fyrir fé eða til að geyma hey í). Allir fornleifastaðir eru greindir til tegundar en hlutverk þeirra er ekki alltaf hægt að ákvarða.
Á eftir hlutverki kemur hnattstaða minjastaðarins í gráðum og mínútum. Mæling hnattstöðu er gerð með GPS staðsetningartækjum og er mælt í miðju hvers minjastaðar. Áætlað frávik frá miðju er um 25 metrar að meðaltali. Þar sem getur um “heimild um…” t.d. útihús, þá er átt við að eingöngu eru til heimildir um staðinn, en minjar hafa ekki fundist á vettvangi við skrásetningu. Þó engar minjar hafi fundist, er engu að síður tekin hnattstaða staðarins ef unnt hefur verið að ákvarða hann á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga með um 50 metra fráviki.
Í annari línu hefst lýsing minjastaðar oftast á tilvitnun í fyrirliggjandi heimildir en síðan er staðsetningu hans lýst. Þar á eftir kemur oft lýsing á aðstæðum og síðast lýsing á mannvirkinu sjálfu ásamt með öðrum upplýsingum sem við eiga.
Í næstsíðustu línu er lagt mat þá hættu sem minjastaðurinn kann að vera í. Hættustig eru eftirfarandi: 1) engin hætta , 2) hætta, og 3) mikil hætta. Gerð er grein fyrir hver er hættuorsök hverju sinni. Þá er í síðustu línu getið heimilda ef einhverjar eru, oft með skammstöfunum, en úr þeim er leyst í Heimildaskrá aftast í skýrslunni.
Voru 45 staðir skráðir í Hrísey, þar af 26 í landi Ystabæjar og 19 í landi Syðstabæjar. Aðeins tveir minjastaðir eru í hinni fornu landareign Miðbæjar, en bæjarstæðið þar telst allt einn minjastaður. Þá er einnig ljóst að minjastöðum mun fjölga mjög í landi Syðstabæjar ef fornleifar sem tengjast myndun þorpsins verða skráðar.
Í Hrísey eru mannvirkjaleifar sjáanlegar á 20 minjastöðum en á 15 stöðum sjást leifarnar ekki lengur. Meðal þeirra eru fornleifar sem hafa verið eyðilagðar eða horfið í tímans rás af ýmsum orsökum. Sjaldan er unnt að ákvarða hvort minjastaður hefur verið algjörlega eyðilagður. Margar þessara minja kunna enn að leynast undir grassverði eða nýbyggingum og gætu komið í ljós við framkvæmdir síðar. 5 fornleifar eru ekki mannvirki heldur þjóðsögustaðir og 5 staðir eru náttúruminjar eða þjóðháttastaðir.
Yfirlitskort af minjum í Hrísey.