Saga Hríseyjar
Í Landnámabók er getið óbeint um landnám í Hrísey því Ingjaldur sonur Helga magra er þar sagður hafa átt Salgerði dóttur Steinólfs hins lága úr Hrísey, sonar Ölvis barnakarls.2 Einnig kemur þar fyrir yngri maður að nafni Hríseyjar-Narfi og var hann sonur Þrándar Narfasonar Þormóðssonar ramma landnámsmanns í Siglufirði. Hríseyjar-Narfi átti Úlfeiði dóttur Ingjalds Helgasonar magra og hefur eyjan verið ættleifð hennar.
Synir þeirra, Ingjaldr og Klængr, bjuggu í Hrísey eftir þau og segir frá deilum og vígi Klængs í Víga-Glúms sögu.3 Hrísey kemur einnig við sögu í Reykdæla sögu og Víga-Skútu en þar segir ekki frá bændum þar heldur því er Vémundr kögur elti Stein Þorbjarnarson úr Árskógi út í eyna en Steinn hafði farið þangað til að hlaða vegg á nausti sínu. Getið er um bæinn í Hrísey og síðan sagt frá bardaga þeirra Vémundar og Steins í naustinu.4 Af þessari heimild má ráða að fyrir utan búskap hafa verið stundaðir róðrar frá Hrísey þegar á 13. öld og hafa bændur á meginlandinu haft þar skipsuppsátur og sennilega aðra aðstöðu til útgerðar.
Næst er getið um Hrísey í heimildum 14. júlí 1202 en þann dag sté Guðmundur Arason, þá biskupsefni á leið til vígslu í Noregi, á land í Hrísey og sagði þar messu.5 Þó ekki sé það tekið fram beint í frásögn þessari má af henni ráða að þá hafi verið komin kirkja í Hrísey. Hríseyjar-Böðvar Hallsson hét maður er var uppi um miðja 13. öld. Um hann er ekkert annað vitað en nafnið og að systir hans var gift Sigurði Þorsteinssyni í Hvammi í Vatnsdal.6 Þær mægðir benda til að Böðvar hafi verið í betri bænda tölu.

Þessar heimildir segja næsta lítið annað en það sem ætla má, að byggð hafi snemma hafist í Hrísey og að þar hafi ekki búið eintómir kotungar auk þess sem mikilvægi útgerðar í eynni kemur skýrt fram. Þó að ekki komi fram í heimildunum að tveir eða fleiri bæir hafi verið í Hrísey þá eru þær ekki þess eðlis að hægt sé að túlka þær þannig að þar hafi til að byrja með verið aðeins einn bær. Hugsanlega hefur fyrstu aldirnar verið eitt aðalbýli í Hrísey og önnur býli verið hjáleigur þaðan, en ekkert verður þó fullyrt um það. 1318 eru greinilega þrjú býli í Hrísey því það ár er Munkaþverárklaustur talið eiga þar bæði Ystabæ og Miðbæ.7 Nöfnin benda sterklega til að aðeins hafi verið eitt býli í viðbót, Syðstibær, en þess er þó ekki getið með nafni fyrr en 1461.
Nöfnin benda ennfremur ekki til þess að einn bærinn hafi verið öðrum betri. Ljóst er af máldaga Munkaþverár að Miðbær hefur verið í byggð í byrjun 14. aldar og sennilega hefur jörðin einnig verið byggð 1461 en frá því ári hefur varðveist annar máldagi klaustursins.8 Í þriðja máldaga klaustursins, frá 1525, er Ystibær hinsvegar talinn einn og sér en síðar í sama skjali er getið um Miðbæ meðal ítaka Munkaþverár og má af því ráða að jörðin hafi þá verið farin í eyði en ennþá verið álitin sérstök eign.9 Ekki er getið um Miðbæ eftir þetta fyrr en í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712. Af jarðabókinni er ljóst að Miðbær hafði þá verið í eyði lengur en elstu menn gátu munað og var þá talið að jörðin hefði “eyðilagst í stóru plágunni Anno 1400.”10 Að ofansögðu er ljóst að hafi Miðbær farið í eyði í plágunni 1402-4 þá hefur hún byggst aftur, en ekki er óhugsandi að hún hafi farið endanlega í eyði í seinni plágunni 1493 þó eins líklegt sé að til þess hafi legið allt aðrar ástæður.
Í máldaga Munkaþverárklausturs frá 1446 er sagt að klaustrið eigi hálfa Hrísey,11 og bendir það til að Ystibær og Miðbær hafi hvor um sig verið minni jarðir en Syðstibær en eftir að Miðbær lagðist í eyði og land hennar var sameinað Ystabæ voru aðaljarðirnar tvær í Hrísey álíka stórar og var hvor um sig metin á 20 hundruð 168612 og sennilega einnig 1675 en þá var eyjan metin á 40 hundruð.13 Það ár gaf konungur Hinrik Bjelke aðmírál og hirðstjóra á Íslandi Hrísey ásamt fjölda annara jarðeigna á Íslandi. Konungur hafði eignast Ystabæ og Miðbæ eins og aðrar jarðir Munkaþverárklausturs eftir siðaskiptin en ekki er þess getið í prentuðum heimildum hvernig eða hvenær krúnan komst yfir Syðstabæ, en ekki er annað vitað en að sú jörð hafi verið bændaeign allar miðaldir og þessvegna fram á 17. öld. Af almennum líkum má þó ráða að konungsvaldið gæti hafa seilst til jarðarinnar mun fyrr.
Árið 1424 rændu Englendingar í Hrísey og brenndu kirkjuna þar. Í skýrslu um þessa atburði segir að þeir hafi lagt alla eyjuna í eyði, en líklegt má telja að það hafi verið ýkjur.14 Höfundur skýrslunnar var Hannis Pálsson hirðstjóri, danskur maður, sem átti í miklum útistöðum við Englendinga hér á landi og reyndi að hindra umsvif þeirra í hvívetna. Hinir ensku kaup- og fiskimenn tóku hann raunar til fanga og fóru með hann til Englands þar sem hann samdi skýrsluna og sést af henni að reiðin hefur kraumað í hinum niðurlægða embættismanni.
Bent hefur verið á að afstaða Íslendinga til enskra kaupmanna, sem fylgdu fiskiflotanum sem fyrst er getið um hér við land 1412, hafi verið allt önnur og mun jákvæðari. Hannis fær heldur ekki hlýjar kveðjur frá Íslendingum: “hörmuðu það fáir” segir höfundur Nýja annáls um það er Englendingar höfðu hann með sér til Englands.15 Um þetta er getið hér því þessir atburðir gefa tilefni til vangaveltna um hversvegna hinir ensku fóru með óspektum um Hrísey og brenndu þar kirkjuna. Engin vissa getur fengist um það en freistandi er að stinga upp á þeim möguleika að í Hrísey, þ.e. Syðstabæ, hafi verið stunduð verslun á vegum konungs á 15. öld, og jafnvel að hann hafi þá þegar átt jörðina. Það gæti gert skiljanlegra að Englendingar hafi kosið að fara þar um ránshendi. Á sama hátt mætti skýra ofbeldi þeirra í Húsavík sama ár en þar hefur konungur skipað upp brennisteini þeim er hann hafði einkarétt til að kaupa á landinu.
Ekki er getið um verslun í Hrísey fyrr en á 17. öld. Á alþingi 1661 var gerð fyrispurn um höndlan Jónasar Trelunds og hans fólks í Hrísey og fengust þau svör að hann höndlaði með leyfi konungs með einhverjum ótilgreindum takmörkunum sem áttu að tryggja að verslun hans væri “hvorki landinu né landsmönnum … til skaða.“16
Fleiri en Jónas þessi hafa haft verslun í Hrísey á þessum árum því 1670 var Þorvaldur nokkur Gunnlaugsson í Hrísey kærður fyrir að hafa tekið góss er Markús Jóhannsson Mumm hefði í Hríseyjarbúðum eftir sig látið.17 Af þessu verður ekki annað ráðið en að Markús Mumm hafi haft verslun í Hrísey og skilið þar eftir vöru um veturinn sem einn eyjarskeggja hefur freistast til að fá lánaða. Það voru íslenskir umboðsmenn Mumm kaupmanns sem kærðu en Hríseyingurinn var aðeins dæmdur til að greiða kaupmanninum aftur það sem tekið hafði verið.
Hrísey var aldrei regluleg kauphöfn á einokunartímanum (1602-1787) enda hlutfallslega stutt þaðan til Akureyrar. Umsvif hinna dönsku manna í Hrísey á seinni hluta 17. aldar gætu tengst versluninni á Akureyri, t.d. þannig að Akureyrarkaupmenn hafi haft einhverskonar útibú eða aðstöðu í Hrísey. Til dæmis má nefna að 1787 var búið að reisa 20 álna langt fiskverkunarhús í Hrísey sem heyrði undir Akureyrarverslun.18 Einnig má vera að Akureyrarkaupmenn hafi haft ítök í Hrísey til að sporna gegn verslun við útlendinga en í skýrslu frá 1722 er Hrísey nefnd meðal þeirra staða á Íslandi þar sem útlenskir duggarar héldu sig mest.19
Af almennum líkum og þeim litlu vísbendingum sem hafa má úr heimildum má ráða að fyrir utan landbúnað og sjóróðra eyjarskeggja hafi allt frá miðöldum verið töluvert um útgerð og viðskipti aðkomumanna í eynni.
Árskógsbóndi hefur átt þar naust á 13. öld og nafnið Krossatóftir, nyrst í Hrísey, er skýrt þannig að þar hafi bændur á Krossum á Árskógsströnd haft aðstöðu til útgerðar. Hríseyjarbúðir þær sem Mumm kaupmaður geymdi vöru sína í hafa sennilega verið syðst á eynni og þar væri helst að leita minja um útgerð og verslun á fyrri öldum.
Útgerð aðkomumanna var ekki svo mikil á seinni öldum að hægt sé að tala um verstöð í Hrísey. 1712 höfðu verið fjórar verbúðir í landi Syðstabæjar og hafði bóndinn þar leigt þær út til sjómanna.20 Verbúðir eru einnig skammt sunnan við bæjarstæði Hvatastaða austan á eynni og hefur þar fundist krítarpípubrot sem bendir til að þaðan hafi verið róið á 18. öld og/eða byrjun 19. aldar.
Útgerð jókst síðan mjög í Hrísey á 19. öld og í kjölfar hennar kom regluleg verslun í eyna. Verður sú saga ekki rakin hér enda heyrir hún til mótunarsögu þorpsins í Hrísey.
Áður er þess getið að kirkja hafi verið komin í Hrísey er Guðmundur góði sté þar í land og sagði messu sumarið 1202.
Það hefur sennilega verið kirkjan í Syðstabæ og það hefur sömuleiðis verið hún sem Englendingar brenndu 1424. Slitur af máldaga Hríseyjarkirkju er til frá 1318 og eru þar taldir þeir gripir sem kirkjan átti.21 Kirkjan hefur ekki verið auðug en þó sæmilega gripum búin.
Kirkju í Syðstabæ er þó ekki getið með berum orðum fyrr en 1461 en þá eru hún og bænhús í Ystabæ talin meðal minniháttar guðshúsa í Árskógsþingum.22 Kirkjan í Syðstabæ var alkirkja, sem þýðir að þar hefur verið sungin messa á hverjum sunnudegi og öllum helgum dögum, en af skránni má ráða að þar hafi ekki verið prestur heldur hafi kirkjunni verið þjónað af prestinum í Stærri-Árskógi.
Í annari skrá sem talin er frá sama ári er þó talinn prestur í Hrísey23 en hinsvegar ekki í sambærilegri skrá frá 1429.24 Þar gæti þó valdið hadvömm því að í niðurlagi skrárinnar eru sóknarkirkjur í Hólabiskupsdæmi taldar 108 með Grímsey, Flatey og Hrísey. Ekki er alltaf mikið leggjandi upp úr nákvæmni eða samkvæmni skriffinna á miðöldum og má því ekki gera mikið úr þessum heimildum.
Líklegast er að Syðstabæjarkirkja hafi verið meðal þeirra sóknarkirkna sem voru með sveigjanlega prestskyld, en til voru kirkjur þar sem ekki var skylt að hafa prest en kirkjubóndinn gat ráðið sér einn slíkan ef hann vildi og hafði efni á. Annars var kirkjum af þessu tagi þjónað af presti frá næstu sóknarkirkju og varð að bæta henni skaðann ef sérstakur prestur var ráðinn til útkirkjunnar.
Kirkjan í Syðstabæ var enn í notkun 1712 en var lögð niður með konungsbréfi 17. maí 1765.25 Krikjan í Syðstabæ er vitnisburður um að þar hafi lengstaf verið meiri umsvif en sem svaraði búskap á tveimur meðaljörðum. Henni hefur verið haldið við því að fjöldi aðkomumanna hefur verið nægur og stöðugur til að standa undir slíkum rekstri. Um bænhús í Ystabæ er aðeins getið einu sinni, í skránni frá 1461, og er ekki er vitað hvar það hefur verið.
Áður hefur þess verið getið að konungur gaf Hinrik Bjelke aðmírál Hrísey alla 1675 en eftir það aukast mjög heimildir um eignarhald og byggð í eynni. Bjelke seldi Hrísey strax aftur sr. Sæmundi Oddssyni26 en 1681 seldi Sr. Sæmundur Hrísey. sr. Skúla Þorlákssyni, syni Þorláks Skúlasonar biskups.27
Sr. Skúli dó í stórubólu 1703 og erfði þá systir hans, Jórunn Þorláksdóttir, eyna og átti hún hana enn 1712.28 Jórunn var eiginkona Brynjólfs Þórðarsonar sýslumanns á Hlíðarenda, sem var mesti eignamaður á Íslandi í byrjun 18. aldar. Hrísey hélst lengi í þeirri fjölskyldu og það var ekki fyrr en 1779 að sonur þeirra Jórunnar og Brynjólfs, Þórður Thorlacius, seldi eynna til Sigurðar Sigurðssonar landþingsskrifara.29
Á 19. öld komust fleiri eigendur að Hrísey og fylgdi Miðbæjarland fyrst í stað Syðstabæ en var á 20. öld keypt af eiganda Ystabæjar og liggurnú undir þá jörð. Athyglisvert er að merki milli jarðanna þriggja fylgja enn miklu görðum sem liggja þvert yfir eyna og eru þeir vafalaust mun eldri en það er Hrísey komst öll á hendur konungs.
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712 eru talin auk Miðbæjar, eyðibýlin Hvatastaðir og Saltnes í landi Syðstabæjar og hafði hvorugt verið byggt í manna minnum. Eins og í Miðbæ eru enn tóftaleifar á þessum stöðum sem sýna að þar hefur verið búið en ekki er ljóst hvenær það hefur verið.
Örnefnið Saltnes bendir til saltvinnslu og er jarðhiti í fjöruborðinu framan við bæjarstæðið þar, sem hægt hefur verið að nýta til að vinna salt úr sjó. Athyglisvert er að 1318 var leigugjald af Miðbæ og Ystabæ 5 vættir salts auk 30 vætta skreiðar. Saltnes er í landi Syðstabæjar og erfitt að ímynda sér að landamerki hafi legið svo á annan hátt á 14. öld að Saltnes hafi þá tilheyrt Miðbæ eða Ystabæ. Sennilegra hlýtur að teljast að fleiri saltvinnslustaðir hafi verið í eynni og hefur þessi iðnaður því verið allmikilvægur fyrir eyjarskeggja á miðöldum.
Á seinni hluta 19. aldar efldist útgerð frá Hrísey og myndaðist þá þorp í Syðstabæjartúni sem teygði sig vestur til Saltness og austur til Hafnarvíkur. Fyrir utan skammvinna búskapartilraun í Miðbæ hefur hinsvegar ekki verið byggt að ráði annarstaðar í Hrísey og er það ástæða þess að fornleifar eru þar óvenju miklar og vel varðveittar.
² ÍF I, 253.
³ ÍF I, 246; ÍF IX, 96–96.
⁴ ÍF X, 188–189.
⁵ Sturl, 208. Guðmundur góði kom aftur til Hríseyjar 1232 – Sturl, 323.
⁶ ÍF XVII, 562.
⁷ DI II, 486.
⁸ DI V, 304.
⁹ DI IX, 309.
¹⁰ JÁM X, 98.
¹¹ DI IV, 698.
¹² Björn Lárusson: The Old Icelandic Land Registers, 272.
¹³ ÁÍ VII, 445.
¹⁴ DI IV, 328.
¹⁵ IA, 294.
¹⁶ ÁÍ VI, 656.
¹⁷ ÁÍ VII, 184–85.
¹⁸ Jón Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, 302–303.
¹⁹ Sama heimild, 610.
²⁰ JÁM X, 99.
²¹ DI II, 458.
²² DI V, 356.
²³ DI V, 360.
²⁴ DI IV, 381.
²⁵ PP, 272.
²⁶ JÁM XIII, 501.
²⁷ Jarðabréf, 51.
²⁸ JÁM X, 97–98.